10 ráð sem hjálpa þér að gera góð kaup á útsölu
Við könnumst öll við slæmar skyndiákvarðanir þegar kemur að útsölu. Öll viljum við spara okkur krónurnar og því er tilvalið að renna yfir þennan lista til að forðast eftirsjá!
- Skipuleggðu þig. Gerðu lista yfir þá hluti sem þig langar að finna á útsölu og haltu þig við hann nema eitthvað einstakt kalli á þig – en þá skaltu spyrja þig: „Þarf ég þetta virkilega?“
- Það er alltaf gott að hugsa skrefinu lengra. Áttu flíkur og skó fyrir sem passa við kaupin?
- Mættu tímanlega á útsöluna. Þá eru bestu líkurnar á því að gera góð kaup og finna réttu stærðirnar. Bestu kaupin klárast alltaf fyrst.
- Kauptu rétta stærð. Ekki reyna að telja þér trú um að þetta „sleppi“ svona eða að þú ætlir þér að passa í þetta síðar. Þá endar flíkin aftast í skápnum.
- Settu þér mörk. Vertu búin að ákveða upphæð sem þú ætlar að leyfa þér að nota á útsölunni. Það kemur í veg fyrir áfall þegar þú kíkir á heimabankann.
- Gáðu að næringunni og byrjaðu leiðangurinn á því að fá þér eitthvað að borða. Maður tekur slæmar skyndiákvarðanir þegar maður fer svangur í verslunarleiðangur.
- Útsölur eru frábært tækifæri til að eignast dýrari og vandaðri hluti, vörur sem þú tímir ekki að kaupa á fullu verði. Slíkir hlutir endast gjarnan lengur og eru því betri kaup þegar að er gáð.
- Farðu í gegnum fataskápinn áður en þú heldur á útsöluna svo þú áttir þig á því hvað þig raunverulega vantar.
- Bestu kaupin eru tímalausar flíkur og hlutir á borð við leðurjakka, rykfrakka, stílhreina strigaskó og hvítar skyrtur.
- Er að hægt að nýta flíkina á marga vegu? Virkar hún bæði við hversdagsleg og fín tilefni? Þá ertu mjög líklega að gera góð kaup!