Tveir nýir bíósalir Smárabíós og stækkun á skemmtisvæði

10. mars 2025

Framkvæmdir eru hafnar við umfangsmikla stækkun á starfssvæði Smárabíós sem felur í sér tvo nýja bíósali og uppfærslu á skemmtisvæði Smárabíós.  

Aðsóknin í Smárabíó og á skemmtisvæðið okkar hefur verið með besta móti og því var ákveðið að ráðast í stækkun og endurbætur á sama tíma og Smáralind hófst handa við frekari stækkun og endurnýjun á veitingasvæðinu í austurendanum. Hjá Smárabíói bætast við tveir nýir bíósalir, gólfpláss bíósvæðisins eykst til muna og skemmtisvæðið okkar verður uppfært“ segir Konstantín Mikaelsson, framkvæmdastjóri Smárabíós.

Upplifun gesta okkar verður enn betri með þessum breytingum, úrval kvikmynda mun aukast, þægindin sömuleiðis og við hlökkum til að opna nýju salina í haust. Stefnt er að því að framkvæmdir á skemmtisvæðinu munu hefjast fyrir áramót.  Á skemmtisvæðinu verður boðið upp á skemmtun fyrir vinahópa, fjölskyldur, afmælishópa, fyrirtæki og einstaklinga og óhætt að fullyrða að allir munu finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Konstantín.

Bíógestir hafa eflaust tekið eftir að áveðin svæði hafa þegar verið afgirt vegna framkvæmda. Þessar breytingar hafa hins vegar engin áhrif á aðkomu eða upplifun gesta, þar sem Smárabíó verður áfram í fullum rekstri á meðan á framkvæmdunum stendur. Gestir geta því notið kvikmynda í hæsta gæðiflokki án truflunnar og hlakkað til nýrra, endurbættra bíósala sem bjóða upp á enn meiri þægindi innan fárra mánaða.

Á sama tíma er hafin uppbygging að nýju veitingasvæði í Smáralind, þar sem gestir munu geta valið úr 13 spennandi veitingastöðum. Þar verður boðið upp á fjölbreytt úrval rétta, allt frá ljúffengum skyndibita til fínni máltíða. Með þessu stækkar og eflist afþreyingar- og veitingasvæði Smáralindar til muna.

Smárabíó býður nú þegar upp á kvikmyndaupplifun í hæsta gæðaflokki í fimm sölum með samtals um 1.000 sætum. Allir salir eru búnir fullkominni stafrænni tækni og háþróuðum laser-myndgæðum. Stærsti salurinn, Smárabíó MAX, er sérlega glæsilegur og býður upp á Dolby Atmos hljóðkerfi sem er eitt það fullkomnasta og besta sem er í boði í heiminum í dag.