Stöðvum stríð gegn börnum

1. október 2019

Forsetahjónin hleypa af stokkunum alheimsátaki Barnaheilla í Smáralind föstudaginn 4. október kl. 16. 

Alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children eru 100 ára á þessu ári. Í tilefni af því blása samtökin til alheimsátaks undir yfirskriftinni „Stöðvum stríð gegn börnum“ en aldrei hafa fleiri börn búið á stríðshrjáðum svæðum en síðustu 20 ár.  

Forsetahjónin herra Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid munu hleypa átakinu af stokkunum kl. 16:00 föstudaginn 4. október í Smáralind. Munu þau „undirrita“ yfirlýsingu um að stöðva stríð gegn börnum á táknrænan hátt með því að setja handarfar sitt á stóran glervegg sem hefur verið settur upp í Smáralind. Almenningi gefst einnig kostur á að gera slíkt hið sama helgina 4.-6. október og hvetjum við fólk til að sýna málefninu stuðning og taka þátt í þessum áhrifaríka viðburði.