Húrra Reykjavík mun opna í Smáralind

8. september 2025

Á næstu vikum mun Húrra Reykjavík opna nýja verslun í Smáralind, stærstu verslunarmiðstöð landsins.

„Við erum spennt að stíga þetta næsta skref með Smáralind. Þar standa nú yfir miklar breytingar, meðal annars með tilkomu nýs veitingasvæðis sem mun bæta upplifunina í húsinu. Þá hefur einnig verið mikil uppbygging í kringum Smáralind og íbúum fjölgað á undanförnum árum, sem gerir staðsetninguna enn mikilvægari fyrir okkur,“ segir Marteinn Högni, framkvæmdastjóri Húrra Reykjavík. Húrra leggur áherslu á að viðskiptavinir geti heimsótt verslunina, skoðað vörur í eigin persónu og kynnst vörumerkjunum betur. „Fyrir okkur er mikilvægt að fólk geti stigið inn í verslanir okkar, upplifað andrúmsloftið og kynnst vörunum af eigin raun. Við leggjum mikið upp úr því að bjóða viðskiptavinum þessa upplifun, sérstaklega nú þegar netverslanir hafa verið á hraðri uppleið,“ segir Marteinn. Verslunin verður staðsett á 2. hæð Smáralindar og er hönnuð af Haf Studio í samstarfi við Húrra. Þar verður áfram boðið upp á fjölbreytt úrval alþjóðlegra vörumerkja sem ekki eru fáanleg annars staðar á Íslandi. Meðal þeirra eru Stone Island, Norse Projects, Brutta Golf, Sporty & Rich, Won Hundred og fjölbreytt úrval skófatnaðar frá Adidas, Nike, New Balance, Salomon og Birkenstock. Með nýrri staðsetningu í Smáralind verður Húrra aðgengilegra fyrir stærri hóp viðskiptavina og tekur þátt í þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað í stærstu verslunarmiðstöð landsins.