Hjálparsveit skáta 50 ára - Afmælissýning á laugardag

1. nóvember 2019

Hjálparsveit skáta í Kópavogi fagnar 50 ára afmæli sínu með glæsilegri sýningu í Smáralind á laugardaginn, 2. nóvember. 

Það verður margt áhugavert að sjá og gera á afmælissýningu Hjálparsveitar skáta í Kópavogi á laugardaginn. Tæki og tól sveitarinnar verða til sýnis, spurningaleikur verður fyrir börn þar sem verðlaunahafar verða dregnir út og björgunarsýning frá fjallabjörgunarhóp sveitarinnar fer fram utan á Norðurturninum kl. 11, 13 og 15. Liðsmenn hjálparsveitarinnar munu taka vel á móti gestum Smáralindar og eru spenntir að kynna sitt starf. Við hvetjum því alla til að koma og fagna með þeim. Björgunarsveitarfólk mun einnig selja neyðarkallinn þannig að þeir sem hafa tök á geta lagt björgunarsveitum landsins stuðning í leiðinni. 

Saga Hjálparsveita skáta í Kópavogi er áhugaverð

  • Fullgildir félagar eru 491
  • Árlega hefja um 20-30 manns nýliðaþjálfun í Hjálparsveit skáta í Kópavogi
  • Fyrsta konan sótti um í sveitinni árið 1972
  • Fyrsta björgun félaga HSSK var hrein tilviljun, en þá var amerískum konum sem sátu fastar í bíl á Kjalvegi, bjargað af félögum í æfingaferð.
  • Fyrsta útkall sveitarinnar var 2. október 1970 og tók ekki nema 30 mínútur fyrir 9 leitarmenn að mæta í hús.
  • Fyrsti bíll sveitarinnar var Bedford. Hann fór þó aldrei í útkall þar sem hann var búinn öllum hugsanlegum bilunum. 
  •  Sögufrægasti bíll HSSK var Dodge Weapon, árgerð 1953, sem bar númerið Y 1845. Sá bíll var m.a. notaður í Vestmannaeyjagosinu til þess að ferja allt mögulegt, allt frá rollum upp í ráðherra.