Hér opnar Gina Tricot í nóvember

19. júlí 2024

Sænska tískufatakeðjan Gina Tricot opnar næstu verslun sína á Íslandi í Smáralind í nóvember. Verslunin verður ”full concept” og mun því innihalda alla vörulínu Gina Tricot. 

Verslun Gina Tricot í Smáralind verður "full concept store" sem þýðir að þar verður að finna alla vörulínu Gina Tricot sem er tískufatnaður og fylgihlutir sem og fatnaður á stúlkur í stærðum 134-170. Verslunin verður staðsett fyrir miðju 1. hæðar Smáralindar, beint framan við aðallyfturnar. Verslunin verður í tveimur sameinuðum rýmum sem telja samtals um 361 fm. Gina Tricot er ein af stærstu tískufatakeðjum Svíþjóðar með um 150 verslanir í 4 löndum en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Borås, hjarta sænsks textíliðnaðar. 

”Það er erfitt að finna orð sem hæfa til að lýsa því þakklæti sem við höfum til okkar viðskiptavina sem hafa sótt okkur svo ótrúlega vel. Við erum hrikalega spennt fyrir að taka næstu skref með Gina með því að mæta í Smáralind og bjóða upp á allt vöruúrval Gina Tricot á einum stað,“ -segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðili Gina Tricot á Íslandi.

”Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með uppgangi Gina Tricot hér á landi síðustu ár og við erum öll himinlifandi að fá vörumerkið hér í húsið innan um þá frábæru flóru verslana og veitingastaða sem hýsast undir þaki Smáralindar”-segir Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri verslunar- og þjónustu hjá Heimum.

Útlit fyrstu verslunar Gina Tricot fylgir nýrri innréttingahönnun fyrirtækisins sem leit fyrst dagsins ljós á Drottninggatan í Stokkhólmi árið 2022. Hönnunin er „ofurnútímaleg“ með vísan í skandinavískan uppruna vörumerkisins þar sem ljósir litir og mjúkir tónar og viðaráferð kallast á við skjái og innréttingar sem veita innblástur og draga fram nýjustu línur Gina Tricot.

Verslunin er drifin áfram af nýju innkaupakerfi sem notast við gervigreind og RFID örmerki til að tryggja sem best aðgengi að helstu nýjungum, minnka birgðautanumhald og koma í veg fyrir sóun í aðfangakeðjunni. Sérstakt þjónustusvæði mun tryggja einfaldað aðgengi þeirra sem sækja netpantanir sínar auk þess sem sjálfsafgreiðsla verður í boði til að tryggja skjóta afgreiðslu fyrir þá viðskiptavini sem það kjósa.

Gina Tricot á Islandi er rekin í gegnum umboðssamning við Lóu D. Kristjánsdóttur og Albert Þór Magnússon.

„Við erum sannfærð um að Gina Tricot verði vel tekið þegar við opnum dyrnar að nýju verslun okkar í Smáralind. Við erum full tilhlökkunar fyrir næstu skrefum okkar með samstarfsaðilum okkar á Íslandi,“ -segir Ted Boman, forstjóri Gina Tricot AB

Gina Tricot leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð, áhrif sín á umhverfið og að vera virkur þátttakandi í að skapa sjálfbærari tískuiðnað, t.d. með því að endurhanna eldri flíkur s.s. í samstarfi við hönnuði úr hönnunarháskólanum í Borås auk þess að kynna línur sem byggja á að endurvinna flíkur og efni og þannig byggja undir hringrásariðnað. Gina Tricot er einnig samstarfsaðili samtaka eins og UN Women, UNICEF og Alheimssjóð fyrir náttúruna (World Wildlife fund for nature) ásamt því að framleiða vörur undir vottunum Svansmerkisins (e. The Nordic Swan Ecolabel) og GOTS (e. Global Organic Textile Standard) sem tryggir notkun bómullar framleidd með sjálfbærari hætti. Síðan 2011 hefur Gina Tricot verið aðili að Amfori, áður BSCI, sem hefur að markmiði að bæta félagslegar aðstæður og umhverfismál í aðfangakeðjunni.

Fylgstu með Gina Tricot á FB, Instagram og TikTok, @ginatricoticeland og skráðu þig í Gina Tricot klúbbinn á www.ginatricot.is eða við inngang nýrrar verslunar á 1. hæð Smáralindar.