Hér er Vatnsdropinn

19. apríl 2023

Í tilefni af Barnamenningarhátíð Kópavogs fer nú fram sýningin Vatnsdropinn á göngugötu Smáralindar.

Sýningin byggir á norrænum barnabókmenntum eftir H.C. Andersen, Astrid Lindgren og Tove Jansson og lásu nemendur valdar sögur eftir þessa höfunda og tengdu saman boðskap og gildi Heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna nr. 15 um Líf á landi. Vatnsdropinn er alþjóðlegt barnamenningarverkefni, sem Kópavogsbær hafði frumkvæði að en samstarfssöfn eru H.C. Andersen safnið í Danmörku, Múmínsafnið í Finnlandi og Undraheimur Ilon Wikland í Eistlandi. Verkefnið snýst um að valdefla börn, að þau komi að ákvarðanatöku um það sem börn vilja í menningarstarfi. Verkefnið er til þriggja ára en meginstefið er að tengja saman boðskap og gildi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við sígild skáldverk barnabókahöfundanna Tove Jansson, Astrid Lindgren og H. C. Andersen. Höfunda sem hafa kennt lesendum að bera virðingu fyrir náttúrunni, gefið innsýn í heim þeirra sem minna mega sín og hvernig má koma þeim til hjálpar.

Á sýningunni í Smáralind gefur að líta verk eftir nemendur úr grunnskólum Kópavogs auk þess sem verk frá sýningu Vatnsdropans í Gerðarsafni verður til sýnis en það er hannað af ungum sýningarstjórum Vatnsdropans. Þá verður hægt að leggjast í kósíhorn og hlusta á sögurnar sem valdar voru sem þema sýningarinnar. Öll verk sýningarinnar eru eftir unga Kópavogsbúa. Sýningin stendur yfir til og með 3. maí.