Nýtt veitingasvæði rís í Smáralind

21. nóvember 2024

Framkvæmdir eru hafnar í austurenda Smáralindar en þar á að rísa nýtt veitinga- og afþreyingasvæði. Áætlað er að 13
veitingastaðir opni á þessu nýja svæði fyrir lok árs 2025

Nýverið hófust umfangsmiklar framkvæmdir í austurenda Smáralindar en þar á að rísa nýtt veitingasvæði. Áætlað er að 13 veitingastaðir opni á þessu nýja svæði í Smáralind fyrir lok árs 2025. Um verður að ræða allt frá skyndibita yfir í fínni veitingastaði sem einnig verða opnir á kvöldin.

Breytingarnar eru hluti af stefnumörkun Heima um að þróa Smáralind sem kjarna þar sem fólk sækir ólíka afþreyingu, mælir sér mót og á notalegar stundir með góðum mat. Kannanir meðal íbúa og þeirra sem starfa í nágrenni Smáralindar hafa leitt í ljós að eftirspurn er eftir slíkum áfangastað á svæðinu. Miklar breytingar hafa orðið á þeim ríflega tuttugu árum sem Smáralind hefur starfað. Sem dæmi má nefna að tugþúsundir fermetra af atvinnu- og íbúðarhúsnæði hafa verið byggðir á síðustu fimm árum í næsta nágrenni.

Hönnun nýja veitingasvæðisins er í höndum Basalts arkitekta, sem meðal annars hönnuðu veitingasvæðið Hafnartorg Gallery sem staðsett er í miðbæ Reykjavíkur. Yfir ein milljón gesta hefur heimsótt það frá opnun þess fyrir tveimur árum síðan. Heimar telja að þessar breytingar geti hjálpað til við að höfða til nýrra viðskiptavinahópa og styrkt tengsl Smáralindar við nærumhverfið. Þá falla þær vel að stefnu Heima um að þróa kjarna þar sem fólk starfar, býr og sækir þjónustu.

Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri viðskipta Heima: „Austurendi Smáralindar hýsti áður Vetrargarðinn og það svæði hefur nánast ekkert verið endurbætt frá upphafi Smáralindar. Við hönnun nýja veitingasvæðisins hefur mikil áhersla verið lögð á að skapa hlýlegt og glæsilegt umhverfi. Með nýja veitingasvæðinu styrkist veitinga- og afþreyingaflóra Smáralindar enn frekar þar sem veitingastöðum í Smáralind fjölgar, úrval veitinga verður fjölbreyttara og mun höfða til ólíkra hópa í mismunandi erindagjörðum, allt frá hröðum og aðgengilegum mat yfir í hágæða matarupplifun.“