Notaður fatnaður fær nýtt líf í Extraloppunni

10. maí 2019

Leigusamningur um opnun verslunarinnar Extraloppan í Smáralind hefur verið undirritaður. Extraloppan mun sérhæfa sig í sölu á notuðum fatnaði, húsbúnaði og hönnunarvöru en sömu eigendur hafa náð mjög góðum árangri með verslunina Barnaloppan. 

Á alþjóðavísu er mikil sókn neytenda í að endurnýta vörur á svo margan hátt og mikilvægt fyrir Smáralind að axla ábyrgð og taka þátt í þessari breytingu.

Auðlindir heimsins eru ekki ótakmarkaðar, endurnýting á framleiddum vörum hlýtur að vera af hinu góða fyrir bæði neytendur og umhverfið.

Mikil fjölgun hefur verið á verslunum víða um heim sem selja notaðan fatnað og vörur og hafa sprottið upp m.a. verslunarmiðstöðvar í Svíþjóð sem selja eingöngu notaðar vörur sem neytendur hafa tekið fagnandi. Eins og Íslendingar þekkja þá hefur verið gríðarlegur áhugi á notuðum barnavörum á Íslandi, þannig að markaður ætti að vera til staðar fyrir annars konar notaðar vörur líka.

Endurvinnsla, endurnýting og ný hlutverk fyrir fatnað og vörur eru ekki ný af nálinni en áhugi neytenda á slíkum vörum og endurnýtingu þeirra hefur aukist gríðarlega með þeirri vitundarvakningu sem á sér stað í heiminum í dag varðandi umhverfið okkar og samfélagslega ábyrgð.

Neytendur eru í auknum mæli að versla notaðar vörur og það er nauðsynlegt fyrir Smáralind að svara þessari kröfu neytenda. H&M ásamt mörgum öðrum verslunarfyrirtækjum hafa tileinkað sér ákveðna sjálfbærni og IKEA hefur einnig sagt að þeir muni einnig leigja út húsgögn í framtíðinni. Þetta er aðeins brot af þeim skrefum sem alþjóðleg vörumerki eru að taka til að verða sjálfbærari með framleiðsluvörur sínar. Þetta litla skref Smáralindar að bæta við einni verslun sem selur notaðan fatnað og vörur er hluti af umhverfisstefnu Smáralindar, að vera ábyrgur aðili í umhverfismálum og gefa okkar viðskiptavinum kost á þvi að gera góð kaup í notuðum fatnaði og öðrum notuðum húsbúnaði og hönnunarvöru og liður á þeirri grænni vegferð  sem Smáralind er á.

Heimurinn er að breytast og við í Smáralind viljum breytast með. Við teljum að Extraloppan verði frábær viðbót í verslunarflóru Smáralindar og að koma hennar muni auka gestafjölda í húsið og styrkja fjölbreytileika og fjölbreytni í vöruúrvali Smáralindar ásamt því að vera umhverfisvænn valkostur fyrir viðskiptavini Smáralindar.