Metfjöldi á Bleika Miðnæturopnun

Það var sannkölluð hátíðarstemning í Smáralind miðvikudaginn 1. október þegar yfir 30.000 manns lögðu leið sína á Miðnæturopnun. Dagurinn var tileinkaður Bleiku slaufunni og söfnuðust rúmlega 8 milljónir króna til styrktar Krabbameinsfélaginu.
Miðnæturopnun er jafnan einn stærsti viðburður ársins í Smáralind en í ár sló hún öll fyrri met. Bleiki liturinn setti svip sinn á húsið og fjölbreytt tilboð, skemmtanir og uppákomur drógu gesti að í tugþúsundatali. Bleika Miðnæturopnunin reyndist einnig veltuhæsti dagur frá upphafi hjá fjölmörgum verslunum í húsinu, sem sýnir glöggt að almenn verslun er í vexti í Smáralind.
„Við erum ótrúlega þakklát fyrir þann frábæra stuðning sem viðskiptavinir okkar sýndu Bleiku slaufunni og Krabbameinsfélaginu. Góð kaup, skemmtileg stemning og mikilvægt málefni sameinuðust á einstakan hátt og við munum seint gleyma þessari Miðnæturopnun,“ segir Sandra Arnardóttir, markaðsstjóri Smáralindar.


Mikilvægur stuðningur frá samfélaginu öllu
Árni Reynir Alfredsson forstöðumaður fjáröflunar- og markaðsmála hjá Krabbameinsfélagi Íslands tekur í sama streng.
„Við viljum færa öllum sem sóttu Smáralind heim á þessu einstaka kvöldi, tóku þátt í Bleiku miðnæturopnuninni, keyptu happdrættismiða, Bleiku slaufuna og aðrar styrktarvörur okkar, innilegar þakkir. Ekki aðeins var þetta stærsta Miðnæturopnun í sögu Smáralindar heldur fór framlagið til félagsins langt fram úr okkar björtustu vonum og nam um átta milljónum króna – sem er meira en safnaðist í fyrra,“ segir Árni Reynir. Hann bætir við að þessi mikli stuðningur gefi félaginu byr undir báða vængi nú í byrjun Bleika október. „Við hvetjum öll til að tryggja sér Bleiku slaufuna og styðja þannig áfram það mikilvæga starf sem Krabbameinsfélagið sinnir í baráttunni gegn krabbameinum – baráttu sem er alfarið fjármögnuð af einstaklingum, fyrirtækjum og samfélaginu öllu.