Upplýsingaskilti Smáralindar hljóta virt hönnunarverðlaun

26. mars 2018

Simon Dance Design sá um hönnun þeirra en þau voru tekin í notkun á síðasta ári. Eicher Werkstätten í Þýskalandi framleiddi skiltin og Íslenska auglýsingastofan annaðist grafíska hönnun í þau.

Hönnun skiltanna hlaut um helgina hin virtu IF Design Award 2018 í flokki sem snýr að vöruhönnun fyrir almenningsrými og smásölu en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í BMW World í München um síðastliðna helgi.

„Auglýsinga- og upplýsingaskjáirnir eru liður í því umbreytingaferli sem Smáralind er á og hefur verið undanfarin tvö ár. Við erum gríðarlega ánægð með hvernig hefur til tekist enda var engu til sparað og verkefnið unnið með einkar færu hönnuðarfyrirtæki og framleiðendum sem starfað hafa fyrir stærstu vörumerki í heimi“ segir Sturla Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Smáralindar sem viðstaddur var móttöku verðlaunanna. „Verslanir okkar í húsinu hafa hag af því að koma sínu vörumerki á framfæri innanhúss í þessum fallegu skjáum og þeir gefa húsinu skemmtilegan blæ til viðbótar við það að vera upplýsandi fyrir gesti Smáralindar“.

 

Hönnun: Simon Dance Design
Grafísk hönnun: Íslenska Auglýsingastofan
Framleiðandi: Eicher Werkstätten
Myndir: Andreas Körner, Bildhübsche Fotografie